Atvinnurekendur kveina

Sérkennilegur grátur hjá æðsta strumpi SA um orð Jóhönnu. Enn sérkennilegra er að fyrirtæki sem er að sýna arð láti hann frá sér umsvifalaust. Réttara væri að setja arðinn í uppbyggingu fyrirtækisins og til að skapa frekari atvinnutækifæri fyrir almenning. Þannig myndi fyrirtækið sýna ábyrgð í meðferð fjármuna á þessum viðsjárverðu tímum. Þessi skilaboð eru til allra aðila í atvinnulífinu. Taka höndum saman og nota arð til að skapa ný atvinnutækifæri og styrkja stoðir fyrirtækjanna. Ekki til að fleygja honum á alsnægtaborð eigendanna. Þeirra tími kemur en tími almennings er núna.
mbl.is Atvinnurekendur reiðir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármál heimilanna - hvað er til ráða

Mörg heimili þurfa nú að glíma við erfiða stöðu í fjármálum sínum. Orsökin er margþætt; óhófleg skuldasöfnun, tap vegna bankahruns, hækkun vaxta og verðbólgu, niðurfærsla á verði húsnæðis, slæm staða íslensku krónunnar og svo mætti áfram telja. Hátt hlutfall heimila getur ekki staðið við skuldbindingar sínar og aðrir lifa við fátæktarmörk til þess að lenda ekki í kjafti innheimtuaðila.

Hvað er til ráða? Í þessum pistli ætla ég að rekja hvað hægt væri að gera til að létta það álag sem er á heimilum landsins nú eftir þau ósköp sem gengið hafa yfir. Vandinn er stór svo aðgerðir þurfa að vera markvissar og þeim þarf að stinga niður þar sem þörfin er mest.

Skilgreinum fyrst hverju við viljum ná fram:

  • Heimilin þurfa að geta staðið við skuldbindingar sínar
  • Ekki er gerður greinamunur hvort skuldir sé vegna húsnæðis eða annars
  • Afkoma heimilinna þarf að vera viðunandi en það er ákvörðun hvað sé viðunandi
  • Heimili haldi húsnæði sínu með eða án eignarhalds

Ekki skiptir máli hver uppruni skuldanna er. Ef ekki er staðið við skuldbindingar þá er gengið að þeim eignum sem viðkomandi á hvort sem það er húsnæði eða annað. Hvað sé viðunandi afkoma er félagsleg ákvörðun og er aðeins tekin á breiðum vettvangi.

Skiptum stöðu heimilanna í fjóra hópa. Sá fyrsti getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Næsti getur staðið við greiðslurn lána en lifir við fátæktarmörk, þriðji getur staðið við skuldbindingar sínar en er með óviðunandi afkomu og loks sá hópur sem getur greitt af lánum sínum og lifað við viðunandi aðstæður. Ljóst er að ekkert þarf að gera fyrir fjórða hópinn. Þriðji hópurinn þarf takmarkaðar aðgerðir sem geta verið framlenging lána og/eða niðurfelling hluta þeirra. Annar hópurinn þarf meiri niðurfellingu lána og í einhverjum tilfellum lengingu lána.

Fyrsti hópurinn þarf meiri aðgerða við. Hverjar sem aðgerðirnar eru þá þurfa þær að ganga hratt og sem allra sársaukalaust fyrir sig. Þeir í þessu hópi sem hafa húsin sín veðsett að fullu eða yfirveðsett og söluverð húss er lægra en veðsetnig þess þá þarf eiginin að yfirfærast yfir til þeirra sem skuldirnar eiga og íbúar þess fá að leigja húsnæðið til lengri tíma á kjörum sem þeir geti staðið við. Ef þetta dugar ekki þarf að fella niður skuldir að því marki sem heimilið getur greitt. Sum heimili gætu þurft á félagslegri lausn að halda. Enginn tilgangur er með því að setja fólk í þrot enda skilar slík aðgerð að jafnaði litlu sem engu. Ætíð þurfum við að hafa í huga að heimilið haldi reisn sinni og aðgerðir gangi vel og fljótt fyrir sig.

Gerum okkur grein fyrir því að öll aðgerðin snýst um að afkoma heimilinna verði viðunandi og sátt ríki um hvað viðunandi afkoma sé. Flatur niðurskurður kemur fyrsta hópnum að engu gagni og er hrein gjöf til fjórða hópsins. Ég hef ekki þær upplýsinga sem þarf til að reikna út kostnað við aðgerðirnar enda yrði sá útreikningur flókinn en nauðsynlegur. Hægt er að stilla heildarkostnað af með skilgreiningu á hvað sé viðunandi, lengingu lána, lækkun vaxta, afnema verðtryggingu og að koma verðbólgu niður. Einnig væri hægt að lengja lánstímann til að draga úr afborgunum.

Ljóst er að heildarskuldir þjóðarbúsins eru gífurlegar og einhver þarf að borga. Ofangreindar aðgerðir þarf þjóðin að greiða og skiptir þá ekki máli úr hvaða vasa greiðslan kemur.

Rökin fyrir því að hluti heimila þurfi að sjá á bak eignum sínum er að við þurfum að gæta jafnræðis. Ekki er sjálfsagt að afhenda hluta heimila eign en öðrum ekki.


Flatur niðurskurður húsnæðislána

Ég get ekki orða bundist. Er þó orðvar maður. TILLÖGURNAR HENNAR LILJU ERU ARFAVITLAUSAR svo vægt sé til orða tekið. Og hún kennir sig við Vinstri græna! Sá flokkur er þó helsta von landsmanna um viðunandi uppbyggingu eftir hrunið sem átt hefur sér stað. Ég ætla ekki að rökstyðja skoðun mína, til þess eru tillögurnar of vitlausar. Í guðanna bænum hugsaðu þig vel um Lilja og sýndu grænan lit.
mbl.is Vill fella niður 4 milljónir af höfuðstól húsnæðislána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvatning og hrós í skólum

Þessi frétt er ein af þeim verri um geðheilbrigði barna og unglinga sem ég hef séð. Þarna er verið að vísa í umbun í form hróss og hvatningar sem skýtur yfir markið. Raunin er sú að hrós og hvatning er eðlilegur og nauðsynlegur hluti af skólastarfinu og ekki síður nauðsynlegur hluti af uppeldi barna og unglinga. Ef barni er ekki hrósað eru miklar líkur á að sjálfsmynd þess skerðist sem síðan getur leitt til þunglyndis snemma á æfi einstaklingsins. Eðlilegt er að gæta hófs í hrósi en hvatning er ekki síður nauðsynleg. Hrós þarf að vera verðskuldað og þeim sem tekur við því þarf að vera það ljóst, annars missir hrósið mark og getur skapað ranga hugmynd í huga barnsins um sjálft sig.

Veru dugleg að hrósa börnum okkar og hvetja þau til góðra verka.

Kíkið á þessa grein sem eru um skylt málefni: Þekkja árangur barna getur afstýrt þunglyndi en á Science Daily er gott safn greina um þetta málefni sem og fjölmörgur önnur. Kíkið þar inn og njótið.

Ég leyfi mér að fullyrða að greinin á mbl.is sé afar slök og skuli engan vegin taka mark á henni.

 


mbl.is Varar við sjálfsdýrkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salt og þunglyndi

Sjálfur er ég að glíma við þunglyndi og sæki mikið í salt. Hvort það hafi jákvæð áhrif skal ég ekki segja til um.

Um þetta er nánað skrifað á: http://www.sciencedaily.com/releases/2009/03/090310152329.htm

Athyglisverð grein eins og margt annað á Science Daily!


mbl.is Léttir salt lundina?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftlagshlýnun

Jörðin er að hlýna. Punktur.

Þessi grein á mbl. is um hlýnun loftlags er ein af mörgum sem hafa verið að  birtast að undanförnu. Ég hef lesið fjölda greina sem hafa stutt eða hrakið hlýnun jarðarinnar. Eftir þann lestur er ég ekki í minnsta vafa um að hér hafa átt sér stað óæskilegar loftlagsbreytingar og að loftslaga sé að hlýna verulega á ákveðnum hluta jarðarinnar í það minnsta. Þó er jörðin ekki hlýrri núna en hefur verið oft áður í gegnum tíðina. Ljóst er að þessi þróun kemur til með að hafa gríðarleg neiðkvæð áhrif á búsetuskilyrði hér á smáhnettinum okkar. Þeir sem mæla gegn því sýna mikið ábyrgðarleysi og það að gera ekkert til að sporna við þróuninni getur leitt okkur út í aðstæður sem gætu reynst óviðráðanlegar

Því segi ég, spornum gegn hlínun jarðarinnar með öllum þeim ráðum sem við höfum.


mbl.is Jörðin hlýnar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir leiðtogar

Eitt af því sem einkennir góða leiðtoga er að þeir nýta hæfileika liðsmanna sinna og að liðið fær að njóta sín til góðra verka. Góður leiðtogi er ekki stjórnandi heldur stýrir liði sínu af hagleik og visku.

Vinstri grænir eru þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa góðan leiðtoga í sínum röðum en það er Steingrímur Jóhann Sigfússon stórbóndasonur frá Gunnarssöðum í Þistilfirði.

Samfylkingin horfir á bak leiðtoga sínum vegna veikinda og nú þarf að velja nýjan. Góður leiðtogi er vandfundinn en af því sem ég hef séð til þess hóps sem kennir sig við Samfylkinguna finnst mér Dagur B. Eggertsson skara framúr sem leiðtogaefni. Ég hef mikla trú á honum og ekki síst ef fyrrnefndir tveir flokkar slá saman og mynda ríkisstjórn eftir kostningar. Við þurfum gott fólk til að ráða við þann vanda sem framundan er.

Því hvet ég Dag B. Eggertsson til að sækjast eftir formanninum.


ELECT - menntun fólks með geðrænan vanda

Þekkt er að menntunarstig fólks sem er að glíma við geðrænan vanda er með því lægsta sem gerist. Hefur þessi hópur að talsverðu leiti misst af því sem hann á rétt á, menntun. Nútímaþjóðfélag byggist að miklu leiti á því að þegnar þess séu vel menntaðir og fái notið hæfileika sinna sem best. Að til staðar sé hópur í okkar nútíma þjóðfélagi sem misst hefur af lestinni er umhugsunarefni og í raun menntakerfinu til háborinnar skammar. Í þessum pistli ætla ég að reyna að varpa ljósi á af hverju hópurinn hefur farið halloka og hvaða leiðir séu færar til úrbóta.

 Fólk fer gjarnan að finna fyrir þunglyndi á seinni tíma unglingsáranna. Er þarna um að ræða aldurinn 14-15 ára og upp í 20 ára. Á þessum tíma veikjast margir einstaklingar og þá sínu fleiri stúlkur en drengir. Síðar bætast drengirnir við og þegar frá líður verða hlutföllin svipuð. Mikið hefur verið rætt og ritað um orsakir þunglyndis. Nýjustu upplýsingar benda til þess að þarna sé um að ræða samspil margra þátta. Erfðir eru sagðar spila hlutverk en með þeim kemst fólk í áhættuhóp en getur verið án einkenna til æfiloka ef ekkert annað kemur til. Aðbúnaður í æsku er talinn hafa mikil áhrif á líkur þess að fólk ávinni sér sjúkdóminn. Þar má nefna fjölskyldur þar sem áfengissýki eða misnotkun efna á sér stað. Vanræksla barna getur haft áhrif og sérstaklega ef annað eða bæði foreldranna hafna barninu, meðvitað eða ómeðvitað. Jákvæð örfun er mikilvæg fyrir barnið og hafa því neikvæðar athugasemdir slæm áhrif. Sérstaklega ef barnið er rifið niður á neikvæðan hátt í stað þess að koma með uppbyggjandi athugasemdir ef eitthvað hefur farið úrskeiðis í fari þess eða athöfnum. Þegar börn eldast kemur einelti til sögunnar. Getur það haft gríðarlega slæm áhrif á andelga heilsu þess sem fyrir því verður. Einnig ef barnið byrjar snemma að nota áfengi eða önnur vímuefni þá er voðinn vís.

Eftir að unglingur veikist af þunglyndi sem er lang algengasti geðsjúkdómurin á þessum aldri, þá þarfnast hann sérstaks stuðnings og faglegrar meðferðar til að vinna upp á móti því sem sjúkdómurinn veldur. Einkennin geta verið margvísleg og bendi ég á vef landlæknisembættisins til að lesa sér betur til um einkennin. Einnig starfa sálfræðingar við marga grunnskóla og til þeirra er hægt að leita. Það sem einn helst hefur áhrif á námið er: Erfiðleikar við að vakna á morgnana, skortur á einbeitingu, erfitt með að muna það sem lesið er, áhugi á náminu skerðist verulega, lífsánæjga minnkar, áhugamál detta út, erfitt að vera innan um fólk og í skólastofu. Þarna er upptalinn hluti áhrifanna. Þetta veldur því síðan að nemandi fer að standa sig lakar í námi en áður og það eykur enn á vanlíðanina. Nemandinn fer að missa trú á sjálfan sig. Að lokum er hann sannfærður um að hann sé óhæfur til náms og jafnvel að hann sé illa gefinn, heimskur.

Á þessu stigi þarf unglingurinn mikinn og markvissan stuðning. Þarna er um að ræða aldurinn frá 15 til 25 ára sérstaklega en það er sá aldur sem ég horfi mest á í þessum pistli. Til þarf að koma samstillt átak uppalenda, kennara, sálfræðinga skólans, námsráðgjafa, kennara, fagfólks utanfrá svo sem geðlækna og sálfræðinga og síðast en ekki síst er æskilegt að skólafélagar fái innsýn inn í hvað sé að gerast. Enginn tekst á við þennan vanda einn. Það hefur verið sýnt frammá að með samstilltu átaki er hægt að snúa þróuninni við og einstaklingurinn haldi áfram í skóla og nái ljómandi árangri ef vel tekst til.

ELECT verkefnið miðar að því að finna bestu leiðir til að styðja við bakið á einstaklingi sem hefur hrakist úr námið eða á í erfiðleikum í námi. Markhópurinn er fólk sem er 18 ára eða eldra. Þann 23. mars byrjar námskeið í London sem ég fer á og þessar aðferðir verða kynntar. Stendur námskeiðið í viku. Í kjölfarið getum við sem á námskeiðið förum en við erum tvö frá Íslandi, komið þessum upplýsingum á framfæri við þá sem málið varðar. Við erum að byggja upp markvissan stuðning við þennan hóp í Klúbbnum Geysi. Við höfum miklar væntingar til verkefnisins en Klúbbar í öðrum löndum sem veitt hafa þessa aðstoð um árabil og þróða með sér virkar aðferðir segjast hafa náð þeim árangri að auka árangur nemenda úr um 20% í 80%. Þetta er einstakur árangur og verður spennandi að sjá hvernig okkur tekst til hér á landi.

Eftir ferðina til London mun ég skrifa um ferðina og þær upplýsingar sem við höfum aflað, hér á síðunni. Nánari upplýsingar er að fá á ELECT verkefnið og Klúbburinn Geysir. Ég hvet ykkur til að skoða tenglana og kynna ykkur efni þeirra.


Snæfellsnesið á 19. öld

Byggð á Snæfellsnesinu einkenndist mjög af útgerð á fyrri öldum. Á nesinu utanverðu var mikill fjöldi verbúða. Þetta kemur fram í manntalinu 1703 og manntölum 19. aldarinnar sem byrja með manntalinu 1801. Vert rannsóknarverkefni er að kanna hvaðan það fólk kemur sem stundar útróður frá verbúðum á Snæfellsnesi. Í þeim manntölum sem tilgreina fæðinarsókn og/eða fæðingarstað einstaklinga virðist sem að flutningur fólks á Nesið sé mjög lítill miðað við þann fjölda íbúa sem býr í Snæfellsnessýslu. Er þessu farið á annan hátt en í nágrannasýslum þar sem flutningur fólks virðist vera umtalsvert meiri. Ég er að vinna að verkefni þar sem ég kanna þessa flutninga fólks og hvaða atvinnu það stundar. Verður fróðlegt að sjá hver byggðarþróun hefur verið á Snæfellsnesi fyrri hluta 19. aldarinnar.

Meira um þetta seinna


Því ekki Evrópusambandið?

Evrópusambandið í þeirri mynd sem það er núna var stofnað í febrúar árið 1992 og tók til starfa í nóvember 1993. Frá stríðslokum höfðu ríki Evrópu gert ýmsa samninga sín á milli og þannig þróaðist samvinna milli ríkja Evrópu.

Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi hefur breyst mikið á síðari árum Fyrirtæki starfa gjarnan í mörgum löndum og starfsemi þeirra er frjáls inn ESB. Einnig eru viðskipti með vörur og þjónustu frjáls. Ísland býr yfir háu menntunarstigi og á því mikla möguleika á að þróa hugmyndir sem seljanlegar eru á frjálsum markaði ESB. Leggja ber áherslu á eflingu háskólanna og framhaldsskólanna svo við séum fremst meðal jafningja hvað menntunarstig varðar. Einnig er nauðsynlegt að efla fjárframlög til áhættufyrirtækja sem vinna að nýjungum. Þekkt er að af hverjum 10 sprotafyrirtækjum nær 1 árangri og af hverjum 20 nær 1 verulegum gróða. Þetta þekkja áhættufjárfestar.

Eflum íslenskt hugvit, göngum í ESB og látum ljós okkar skína. Framtíðin liggur í þekkingu og starfi frumkvöðla.

 Kíkið á:  Evrópusambandið á Wikipedia


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Trausti Traustason

Höfundur

Trausti Traustason
Trausti Traustason
Er félagi í Klúbbnum Geysi. Menntaður verkfræðingur frá HÍ 1982. Stunda ættfræði og les mikið í stjörnufræði.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband